Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) var stofnað 4. september 1969 og fagnar því 48 ára afmæli sínu í ár.
Megin markmið félagsins eru beita sér fyrir hreinræktun hunda, vera málsvari hundaeigenda á Íslandi ásamt því að halda utan um og verja stofn íslenska fjárhundsins sem er eina íslenska hundategundin. HRFÍ hefur beitt sér fyrir leyfðu hundahaldi í þéttbýli og því að afsláttur sé veittur af hundaleyfisgjöldum hafi eigandi sótt námskeið í grunnhundauppeldi. Félagið rekur einnig skrifstofu sem opin er alla virka daga þar sem félagsmenn og aðrir geta aflað sér upplýsinga um flest sem viðkemur hundakaupum og hundahaldi. Afhverju hreinræktaðan hund? Hreinræktun hunda á sér langa sögu í heiminum, hún hefur verið stunduð í árþúsundir til þess að viðhalda ákveðnum eiginleikum sem hafa þótt æskilegir hvort sem er varðandi útlit eða hegðun. Ef hvolpur er keyptur af óþekktum uppruna er hann ekki hægt að segja fyrir um í hvaða stærð hann verður fullvaxinn, hvernig feldurinn verður, hvort hann ætti að geta hentað í veiði, sem vinnuhundur, hvort hann sé auðþjálfanlegur eða erfiðari í þjálfun, hvort hann hafi mjög sterkt þefskyn og gæti komið til greina sem leitarhundur eða hafi hvaða þá eiginleika sem eigandinn óskar. Með því að fá sér hreinræktaðan hund er hægt að spá mun nánar fyrir um eiginleika ákveðinna hvolpa þar sem um leið og uppruni hunds er þekktur og sannanlegur verður auðveldara að spá fyrir um hvernig hann þroskast. Hverri tegund fylgir auðkennandi útlit OG eiginleikar, útlit tegunda er ólíkt og eiginleikar þeirra líka, allt eru þetta hundar en hjá sumum tegundum er meiri leitarhvöt, aðrir hafa sterkt smalaeðli, enn aðrir hafa sterka félagseiginleika. Hvað er ættbók og til hvers er hún? Ættbók er skjal sem sýnir að viðurkennt hundaræktarfélag vottar að uppruni hundsins sé sannanlegur og réttur og að hann sé af þeirri tegund sem ætlað er. Einnig getur ættbókin innihaldið upplýsingar um helstu nauðsynlegu heilsufarsniðurstöður forfeðra hvolpsins. HRFÍ heldur svo utan um enn meiri upplýsingar en koma fram í ættbókinni sjálfri og geta félagsmenn nálgast upplýsingar á skrifstofu félagsins eða hjá viðkomandi ræktunardeild. Afhverju hund með ættbók frá HRFÍ? HRFÍ er aðili að alþjóðasamtökum hundaræktarfélaga FCI. Aðeins eitt félag í hverju landi getur orðið aðili að FCI og er því hundur með FCI ættbók með gilda ættbók í öllum aðildarfélögum FCI. FCI aðildarfélögin eru yfirleitt þau stærstu og virtustu í sínum heimalöndum og eiga sér jafnvel hátt í 150 ára sögu. HRFÍ er svo einnig í samstarfi við norrænu hundaræktarfélögin. HRFÍ heldur vel utan um heilsufar allra tegunda í félaginu, er í góðu samstarfi við yfirvöld og yfirleitt kallað til ráðgjafar þegar kemur að lagasetningum sem tengjast hundahaldi. Félagið heldur úti ræktunardeildum og hinum ýmsu nefndum, t.d. siðanefnd sem sér til þess að félagsmenn fylgi reglum félagsins og stundi aðeins gott ræktunarstarf. HRFÍ er stærsta og elsta hundaræktarfélagð á Íslandi og hefur starfað óslitið frá árinu 1969. Félagið heldur úti skrifstofu sem opin er alla virka daga, hundaskóla, stórum sýningum oft á ári, vinnu og veiðiprófum ásamt því að standa að ýmsum viðburðum og fræðslu. Afhverju ætti ég að gerast félagsmaður? Með því að gerast félagsmaður í HRFÍ gerist þú meðlimur í stærstu samtökum hundaeigenda á Íslandi. Allir eru velkomnir í félagið hvort sem þeir eiga hund í félaginu eða ekki. Félagsaðild veitir afslátt af flestri þjónustu HRFÍ og er krafa til að taka þátt í viðburðum eins og sýningum og veiðiprófum. Félagar í HRFÍ fá sendan Sám, tímarit hundaræktarfélagsins sem er eina íslenska hundablaðið. Félagsmenn HRFÍ geta haft áhrif á starf og stefnu félagsins með setu í nefndum og stjórnum og með atkvæðisrétti á aðalfundum. Ársreikningar félagsins eru birtir öllum félagsmönnum. Hér er hægt að gerast félagsmaður í HRFÍ: Skráning í HRFÍ |